Tuesday, July 6, 2010

Taktu mig - Éttu mig

Ég heyrði auglýsingu frá Aktu -Taktu í útvarpinu áðan og þá rifjaðist upp fyrir mér dálítið skemmtilegt...

Langamma sona minna var eitt sinn að passa 8 ára dótturdóttur sína yfir helgi og mamma hennar bað mig að skutla til hennar tösku sem gleymst hafði heima. Þegar ég kom með töskuna fékk ég að heyra um ævintýri dagsins yfir kaffibolla. Þær höfðu m.a. gengið niður Laugarveginn og niður að tjörn, þar sem þær gáfu öndunum brauð, og svo alla leiðina heim aftur.

"Það var mjög gaman hjá okkur," sagði gamla konan brosandi. "En þegar við komum heim vorum svo hræðilega þreyttar að við nenntum ekki að elda kvöldmat. Við keyptum okkur þess vegna bara hamborgara hérna úti í Taktu mig - éttu mig."

Einhvern veginn tókst mér að halda niðri í mér hlátrinum á meðan ég kvaddi þá gömlu, en um leið og ég var komin inn í bíl sprakk ég úr hlátri.

Síðan þá hafa
Aktu - Taktu sjoppurnar aldrei verið kallaðar neitt annað í minni fjölskyldu en Taktu mig - Éttu mig.

Sunday, July 4, 2010

Tíu fingur upp til guðs

Áður en ég lærði að synda fór ég stundum í Laugardalslaugina með afa mínum. Til að byrja með þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að sleppa bakkanum. Ég var viss um að ég myndi berast með vatninu út í djúpu laugina og þá gæti farið illa.

Dag einn í sundi, þar sem ég ríghélt í bakkann alsæl og fikraði mig um í grunnu lauginni, kom til mín stelpa á mínum aldri. Hún horfði á mig um stund og spurði svo afhverju ég héldi í bakkann. Áður en ég gat svarað bætti hún við: "Ertu hrædd um að vatnið taki þig í burtu ef þú sleppir"?

Ég hugsaði um það eitt augnablik hvort ég ætti að þora að viðurkenna hræðslu mína, en áður en ég náði að koma upp orði sagði stelpan: "Maður getur alveg labbað þangað sem maður vill ef maður sleppir. Ég er að segja alveg satt. Tíu fingur upp til Guðs". Svo brosti hún sannfærandi og svamlaði í burtu.

Fyrst sleppti ég annarri hendinni, svo hinni. Og viti menn. Ég barst ekkert með vatninu, heldur réð ferðinni sjálf. Og þannig hefur það verið æ síðan.